Upphafið

Um hundruðir ára hafði landbúnaður verið aðal atvinnuvegurinn í héraðinu, en saga Djúpavíkur hefst árið 1917 þegar Elías Stefánsson setti þar á stofn síldarsöltunarstöð. Þetta breytti lífi fólks, en síðan varð Elías gjaldþrota í kreppunni miklu árið 1919.

Verksmiðjan

Árið 1934 var hafist handa við byggingu síldarverksmiðju á Djúpavík og aðeins rúmu ári síðar, eða 7. júlí 1935 var farið að framleiða bæði síldarmjöl og lýsi. Veiðin var mjög góð og verksmiðjan malaði gull.
Þegar síldarverksmiðjan var fullbyggð var hún langstærsta steinsteypta bygging á Íslandi. Enn þann dag í dag er hún gríðarstór, 90 metra löng á 3 hæðum.

Síldarverksmiðjan var útbúin öllum fullkomnustu tækjum til síldarbræðslu og vinnslu á mjöli. Lýsið fór í gegnum 6 skilvindur sem skildu úr því vatn og föst efni og fór síðan í steinsteypta tanka fyrir utan verksmiðjuna sem rúmuðu samtals 5.600 tonn. Slíkar skilvindur höfðu ekki verið notaðar áður hér á landi.
En tímarnir breyttust. Aflinn náði hámarki á svæðinu sumarið 1944, en eftir það minnkaði síldastofninn hratt. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til nýrra notkunarmöguleika var síldarverksmiðjunni endanlega lokað árið 1954.

Djúpavík í dag

Í dag er í vélasal síldarverksmiðjunnar Sögusýning Djúpavíkur sem segir frá tímum síldarævintýranna. Einnig er hægt að fá leiðsögn í gegnum verksmiðjuna sjálfa. Nóbelskáldið Halldór Laxness fjallar á spaugilegan hátt um síldarárin í bók sinni Guðsgjafaþula.

Í gegnum árin hafa ýmsir menningaratburðir átt sér stað í síldarverksmiðjunni. Árið 1994 var “Lífið er lottery” eftir Jónas og Jón Múla Árnason sýnt, árið 1996 var flutt leikritið “Á sama bekk” eftir Sævar Sigurgeirsson og árið 1997 leikritið “Jóðlíf” eftir Odd Björnsson. Nokkur böll voru haldin þar á árunum 1998-2002 og sumarið 2006 hélt hljómsveitin Sigur Rós þar tónleika.